Mjög margir eru með stífar mjaðmir og er kyrrsetufólk meirihluti þeirra. Stífar mjaðmir auka hættu á meiðslum þar sem mikið álag er á vöðvunum sem gefa ekki nógu vel eftir við hreyfingu.

Hvað þýðir að vera með stífar mjaðmir?
Stífleiki í mjöðmum er vegna spennu í mjaðmabeygjuvöðvum (e. hip flexors) sem tengja fótleggi við mjaðmir og gera okkur kleift að beygja okkur fram frá mitti og lyfta fótleggjum.

Hvernig veistu að þú ert með stífar mjaðmir?
Sársauki og óþægindi vegna stífra mjaðma koma fram í nára, mjóbaki og aftanverðum lærum. Stífar mjaðmir geta líka leitt af sér vandamál í hnjám. Það er til auðveld leið að meta liðleika í mjöðmum og kallast hún The Thomas test:

– Leggstu á bakið og dragðu bæði hné að brjósti
– Á meðan þú heldur hægra hné að brjósti, réttu úr vinstri fæti
– Mjaðmabeygjuvöðvar teljast stífir ef þú getur ekki náð vinstri fæti alveg niður í gólf án þess að hægra hné losni frá líkamanum.

Hvað veldur stífum mjöðmum?
Kyrrsetulífstíll er helsta vandamálið en þegar við sitjum lengi þá slaknar á vöðvunum og þeir verða latir, aumir og stuttir. Líkamsstaða hefur einnig áhrif (fett bak eða mjaðmir sem skjótast fram) eða það að sofa alltaf á sömu hlið. Þeir sem hafa stífar mjaðmir finna sérstaklega fyrir því þegar þeir gera æfingar fyrir neðri hluta líkamans eins og hnébeygjur (e. squats) og deadlifts.

Hvað getum við gert til að koma í veg fyrir eða draga úr líkum á stífum mjöðmum?
Það er sennilega ekki hægt að koma 100% í veg fyrir stífar mjaðmir en það er hægt að draga úr hættu á mjaðmaverkjum með því að standa upp á klukkutíma fresti í nokkrar mínútur í senn (ef þú vinnur við skrifborð); hita vel upp fyrir æfingar og teygja vel á eftir æfingar. Bolta- eða rúllunudd hjálpar líka til við að brjóta upp örvef, auka blóðflæði og losa um endorfín til að draga úr verkjum.

Í Yoga Trapeze tímunum eru það mjaðmastífu einstaklingarnir sem eiga hvað erfiðast með að krækja fótum og fara á hvolf. Með því að styrkja vöðvana vel, teygja svo vel á þeim og enda á nuddi þá hámörkum við líkurnar á að losa um stífleika og losna við verki í mjöðmum.