Við eyðum öllu lífinu í að reyna að vera í jafnvægi, hvort sem það tengist fjármálum, mataræði eða tímastjórnun. Jafnvægi snýst um stjórn og græðum við mikið á að bæta því við heilsuprógrammið okkar. Það gerir okkur auðveldara að stjórna líkamanum og koma í veg fyrir meiðsli.

Við styðjumst við jafnvægi í nánast öllu sem við gerum í okkar daglega lífi, hvort sem það er að ganga, stíga upp úr stólnum eða halla okkur fram til að reima skóna. Sterkir vöðvar gera okkur kleift að vera kyrr í stöðum sem reyna á jafnvægi og snúast jafnvægisæfingar um að styrkja vöðva sem hjálpa okkur að standa upprétt, þ.m.t. fætur og kvið.

Kostir þess að æfa jafnvægi eru m.a.:

  1. Aukin líkamsvitund. Aukin líkamsvitund leiðir af sér aukin viðbrögð og er mikilvæg þegar kemur að jafnvægi því hún hjálpar okkur að bregðast hratt við ef eitthvað kemur upp á. Því meira sem þú æfir jafnvægi, því minni líkur eru á að þú dettir og meiðir þig. Og ef þú dettur, þá verða viðbrögðin betri og hraðari og þú meiðir þig síður.
  2. Betri samhæfing. Þú lærir að vinna með líkamann og hreyfa þig þannig að allur líkaminn vinnur saman sem minnkar líkur á meiðslum eins og tognun.
  3. Stöðugri liðamót (hné, ökklar, mjaðmir og axlir).
  4. Þjálfun djúpvöðva við hryggsúlu. Ef þessir vöðvar eru sterkir þá dregur það verulega úr líkum á bakverkjum. Það er erfitt að þjálfa þessa vöðva – besta leiðin eru jafnvægisæfingar.
  5. Aukin þolinmæði. Það græða allir á aukinni þolinmæði – bæði þú og aðrir í kringum þig. Það sem við lærum á dýnunni tökum við með okkur út í lífið.

Með aldrinum minnkar jafnvægið og þá er enn mikilvægara að huga að jafnvægisæfingum svo við getum haldið áfram að gera hlutina sem okkur langar að gera. Lélegt jafnvægi getur gert það að verkum að við hreyfum okkur lítið og þá erum við komin í vítahring sem erfitt er að losna úr.

Bættu jafnvægisæfingum við prógrammið þitt strax í dag!