Fæturnir tengja okkur við jörðina og veita okkur jafnvægi og stöðugleika. Ef þeir eru veikburða þá geta þeir ekki veitt líkamanum nægan stuðning til að ná árangri í ræktinni. Hælaskór eru algert eitur fyrir fæturna því þeir hamla náttúrulegri hreyfingu liðamótanna í ökklanum. Það að vera of mikið í skóm yfir höfuð er slæmt fyrir fæturna en skór sem þrengja að ökkla eru hamlandi. Það er því góð hugmynd að vera berfættur (eða á sokkunum) eins oft og hægt er.

Hvað er að hjá þeim sem eru með stífa ökkla og fætur? Ef smærri vöðvarnir í fætinum eru of veikburða til að styðja við fót og ökkla þá bregst líkaminn við með því að auka álag á stærri vöðvana. Þetta veldur spennu í kálfum og ökklum. Það hjálpar að teygja, sem er skammtímalausn – en langtímalausnin er að styrkja vöðvana í fætinum með æfingum sem stuðla að samhæfingu og vekja upp sofandi vöðva.

Vöðvar, sinar og liðbönd fótanna liggja frá ofanverðum kálfum og alveg niður í tær. Kálfarnir gera okkur kleift að rísa upp á tær og hjálpa til þegar við hlaupum eða hoppum. Þó svo við stöndum í báða fætur þá eru kálfarnir að vinna við að gefa okkur stöðugleika í æfingum eins og hnébeygjum og framstigum. Að teygja og styrkja kálfa getur því leitt af sér sterkari ökkla.

Að æfa berfætt er frábær leið til að styrkja fætur og ökkla. Í jóga gerum við æfingar fyrir allan líkamann til að viðhalda jafnvægi og stöðugleika, og þar sem við erum berfætt fá fæturnir kærkomið frelsi og fá að gera það sem þeim er ætlað. Að æfa jafnvægisæfingar berfætt er ein besta leiðin til að styrkja fætur, iljar og tær og byggja þannig upp styrkleika til að koma líkamanum í betra jafnvægi.