Upphífingar eru ein áhrifaríkasta æfing fyrir efri hluta líkamans. Þær hjálpa okkur að byggja upp togstyrk og auka vöðvamassa í baki og tvíhöfða. Í upphífingum virkjum við vöðvana í baki, höndum, öxlum, brjóstkassa og kvið. Upphífingar byggja ekki bara upp styrk í líkamanum heldur hjálpa okkur að bæta gripstyrk sem hjálpar okkur að bæta okkur í öðrum æfingum eins og t.d. dead lifts, bekkpressu og róðri.

Upphífingar eru hins vegar ekkert auðveldar! Það er sagt að upphífingar séu erfiðari fyrir konur en karla þótt þær séu yfirleitt léttari. Það er vegna þess að konur eru með meiri vöðvamassa á neðri hluta líkamans og minni vöðvamassa á efri hluta líkamans. Besta leiðin til að byggja sig upp fyrir upphífingar er að læra tæknina og byrja á auðveldari æfingum til að byggja upp vöðvastyrk.

Í Yoga Trapeze tímum vinnum við með svokallaðar neikvæðar upphífingar. Í stað þess að toga sig upp og hoppa svo niður, þá hoppum við upp og látum okkur síga hægt niður. Þannig lærum við tæknina og hvaða vöðva á að virkja og erum í leiðinni að styrkja sömu vöðva og við notum í upphífingum.